Innskráning í Karellen
news

Alþjóðlegi Downs-dagurinn - Fögnum margbreytileikanum

21. 03. 2020

Í dag er alþjóðlegi Downs dagurinn og tilvalið að nýta hann til þess að fagna margbreytileika mannlífsins!

Í öllum skólum, á öllum vinnustöðum og á öllum vettvangi mannlegs lífs ríkir mikill margbreytileiki sem sagan sýnir að oft hefur verið leitast við að horfa fram hjá, ekki hafa allir notið sama réttar, virðingar og tækifæra. Það er meira að segja til alls konar réttlæting á því.

En staðreyndin er sú að engir tveir eru eins, t.d. erum við svo heppin hér í leikskólanum okkar að búa að miklum margbreytileika innan barnahópsins, foreldrahópsins og kennarahópsins. Önnur staðreynd er t.d. sú að öll börnin í leikskólanum okkar eru sérþarfabörn í þeirri víðustu skilgreiningu á því hugtaki.

Fræðsla og þekking eru öflug vopn í heimi sem þótt hefur sjálfsagt og eðlilegt að ýta sumum út á jaðarinn þegar kemur að réttindum, virðingu og tækifærum. Við berum öll ábyrgð á því að stuðla að þeirri fræðslu og þekkingu. Gefa börnunum tækifæri til að búa til alvöru jafnréttissamfélag, þar sem allir hafa tækifæri til að taka þátt í samfélaginu hver á sínum forsendum. Við þurfum að taka saman höndum til þess að tala ekki bara hátíðlega um slík mannréttindi við börnin okkar, heldur að lifa þannig að við séum alvöru fyrirmynd í orði og á borði.

Margbreytileikinn er auður, vannýttur auður!

Á heimasíðu Félags áhugafólks um Downs heilkenni er að finna ýmsan fróðleik, t.d.:

Að vera með Downs: https://www.downs.is/Fraedsluefni/Baeklingar/Ad_vera_med_Downs/

Yndisleg og mjög fróðleg mynd um eðlilega þáttöku ungmenna sem eru með Downs heilkenni: https://www.youtube.com/watch?v=4LZag63Cufo&feature=youtu.be


© 2016 - Karellen