Innskráning í Karellen
news

Orðsporið 2021

08. 02. 2021

Leikskólinn hlýtur Orðsporið 2021

Dagur leikskólans er 6. febrúar en þar sem hann ber upp á laugardag var honum fagnað víða um land fyrir helgi. RannUng efndi til áhugaverðrar netráðstefnu 5. febrúar þar sem menntamálaráðherra tilkynnti um handhafa Orðsporsins 2021. Orðið handhafi er hér í fleirtölu því hvatningarverðlaunin hlýtur leikskólastigið í heild sinni; leikskólakennarar, stjórnendur og starfsfólk leikskólanna.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tilkynnti hver hlýtur Orðsporið 2021, hvatningarverðlaun leikskólans, á morgunfundi RannUng. Verðlaunin eru óvenjuleg þetta árið en ákveðið var að veita leikskólastiginu í heild Orðsporið.

Það var mat valnefndar um Orðsporið að leikskólakennarar, stjórnendur og starfsfólk leikskólanna hafi sýnt ótrúlega elju og fagmennsku á tímum COVID-19. Leikskólarnir hafa unnið afar vel úr erfiðum aðstæðum með velferð og nám barna í algjöru fyrirrúmi.

„Leikskólastigið hefur staðið í ströngu undanfarið ár og mikið hefur mætt á kennurum, stjórnendum og öllu starfsfólki leikskólanna við að halda leikskólastarfi gangandi. Unnið hefur verið algjört þrekvirki á leikskólastiginu og fyrir það ber að þakka. Ég geri mér grein fyrir því að þetta hefur verið á tímum mjög erfitt. Þess vegna vil ég þakka öllum þeim sem starfa á leikskólastiginu fyrir þeirra vinnu. Þið eigið svo sannarlega skilið Orðsporið 2021,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra þegar hún tilkynnti um verðlaunin.

Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla, sagði í sínu ávarpi að leikskólarnir væru vel að Orðsporinu komnir eftir að hafa staðið sig afburða vel í verkefnum liðins árs.

Að Orðsporinu standa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli.

Við óskum leikskólakennurum, stjórnendum leikskólanna og öllu starfsfólki innilega til hamingju með Dag leikskólans og hvatningarverðlaunin Orðsporið.

© 2016 - Karellen