Innskráning í Karellen
news

Takk fyrir kæru foreldrar

19. 11. 2021

Kæru foreldrar.

Það er búin að vera mikil vinna í eldhúsinu við að vaska allt upp, fara yfir matvöruna hvað er heilt og hvað er ónýtt. Þegar við flúðum húsið var allt að fullu við að elda hádegismatinn og ekki hægt að ganga frá neinu fyrr en í gær.

Slökkviliðsstjóri Sigurður A. Jónsson og Sveinn H. Þorbjörnsson komu á fund í gær með kennurum skólans til að fara yfir brunavarnir og kortleggja stöðuna í framhaldi af atburðum gærdagsins.

Í gær sendu tryggingarnar tæki með flugi sem á að láta ganga til að hreinsa loftið þar sem reykurinn komst um í miðhúsinu, fataherbergi Hvítakjarna, eldhúsi, kaffistofu kennara, undirbúningsherbergi, sérkennsluherbergi og salerni kennara. Einnig kemur mannskapur til hreingerninga því það fór meira sót um þetta svæði en sást í fyrstu.

Símakerfið er komið í lag þegar við komum til starfa í morgun.

Ég vil þakka ykkur kæru foreldrar fyrir vinsemdina og skilning í okkar garð. Við kennarar fengum áfallahjálp sem var afar mikilvæg til að raða okkur saman aftur og safna kröftum. Starfsfólk og kennarar Eyrarskjóls eru svo miklar hetjur og að verða vitni að vinnubrögðum þeirra í gær var einstakt allir með á hreinu hvert þeirra hlutskipti var. Systurnar Röð, Regla og Rútína sem eru festan í öllu okkar starfi stóðu aldeilis fyrir sýnu í þessu mikla verkefni sem við fengum í fangið að morgni 17. nóvember.

Í dag eru 9 ár síðan ég hóf störf á yndislegasta vinnustað í heimi Eyrarskjóli, hver dagur hefur verið hvers virði þegar ég lít til baka, foreldrar sem hafið verið hér eruð einstakir í sinni röð og þið sem eruð núna takk fyrir að standa alltaf við bakið á okkur.

Kveðja og góða helgi, Guja

© 2016 - Karellen