Innskráning í Karellen

Leikskólinn Eyrarskjól opnaði formlega 11. september 1985 og formlegt leikskólastarf hófst 17. september.

Í fyrstu var ein hrein dagheimilisdeild, ein blönduð deild og ein hrein leikskóladeild. Skólastarfið hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina og þróast eftir stefnum og straumum eins og gengur. Hjallastefnan var tekin upp í skólanum í ágúst 2003 og nýtti starfsfólkið sér alla þætti úr námskrá Hjallastefnunnar, auk þess að vinna eftir aðalnámskrá leikskóla, með sérstaka áherslu á markvissa málörvun og stærðfræði. Einnig var lögð mikil áhersla á hreyfingu og hollt fæði. Þegar á leið var talað um að leikskólar sem ekki voru reknir af Hjallastefnunni beint, störfuðu í anda Hjallastefnunnar. En þá var ekki lengur hægt að ganga að gögnum Hjallastefnunnar vísum, s.s. eins og handbókum kennara o.fl.


Foreldrar barna í leikskólanum komu að máli við stjórnendur skólans haustið 2012 og gerðu grein fyrir því að þau vildu leggja áherslu á að skólinn yrði áfram Hjallastefnuskóli og leitað yrði leiða til að skerpa á stefnunni. Hjallastefnan ehf. og Ísafjarðarbær gerðu með sér rekstrarsamning vorið 2014 og um haustið tók Hjallastefnan formlega við rekstri skólans.


Í dag vinnum við alfarið eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar. Nánari upplýsingar um Hjallastefnuna má finna á heimasíðu Hjallastefnunnar: https://www.hjalli.is/


Nöfn deilda í leikskólanum hafa tekið breytingum í áranna rás og nú tölum við um kjarna í stað deilda eins og gert er í Hjallastefnunni. Í ágúst 2019 voru formlega teknir í notkun tveir nýir kjarnar í viðbyggingu og búið var að fara í endurbætur á eldra húsnæði skólans. Við erum með Rauða kjarna þar sem elstu drengirnir 3 - 4 ára dvelja og Bláa kjarna þar sem elstu stúlkurnar 3 - 4 ára dvelja. Á Græna kjarna eru stúlkur 2-3 ára, á Gula kjarna dvelja drengir 2 - 3 ára. Á Hvíta og Gráa kjarna eru yngstu börnin, drengir og stúlkur 1 - 2 ára.


Ísa­fjarðarbær sér um að út­hluta leik­skóla­pláss­um fyrir Eyrarskjól og skól­inn nýtur sama sér­fræðistuðnings og aðrir skól­ar í sveit­ar­fé­lag­inu sem eru reknir af Ísafjarðarbæ. Tengiliður Eyrarskjóls við Skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar Guðrún Birgisdóttir Skóla- og sérkennslufulltrúi.


© 2016 - Karellen