Innskráning í Karellen
news

Bréf til foreldra

07. 09. 2022

Kæru foreldrar og forráðafólk.

Eins og þið hafið orðið vör við í fréttaflutningi og í fundargerð frá síðasta bæjarráðsfundi https://www.isafjordur.is/is/stjornsysla/stjornsyslan/fundargerdir/baejarrad/1505

sendi Ingibjörg aðstoðarskólastjóri inn erindi þar sem komu fram alvarlegar athugasemdir um óbærilega ábyrgð okkar stjórnenda skólans og þó sérstaklega Ísafjarðarbæjar vegna trjákurls sem sett var á lóð skólans þegar farið var í endurbætur á lóðinni í fyrra.

Við höfum fengið fregnir af því að foreldrar hafi undrað sig á því að hafa ekki fengið upplýsingar um atvikið sem varð þegar kurl stóð í barni í síðustu viku. Við skiljum það vel.

Málavextir eru þannig að: Það hefur verið baráttumál hjá okkur stjórnendum skólans frá því áður en kurlið var sett niður að það yrði ekki notað á lóðinni þar sem við gerðum okkur að sjálfsögðu grein fyrir hættunni. Eins og fram hefur komið í fréttum fengum við þau svör að þetta efni væri löglegt og vottað og við gætum ekki fengið að ráðskast með efnisval. Við höfum samt sem áður haldið áfram að gera alvarlegar athugasemdir og benda á að börnin væru að setja þetta í munninn. Starfsfólkið hefur að sjálfsögðu verið vel vakandi með að fylgjast með því að taka kurlið af þeim og hefur það verið mikill streituvaldur að eitthvað gæti komið upp á líkt því sem svo gerðist í síðustu viku.

Við höfum leitast við að fara réttar boðleiðir í málum sem þarf að taka á í skólanum og þau hafa verið þó nokkur. Þetta hefur verið mikið tilfinningamál hjá okkur jafnt og praktískt og við höfum reynt að meta aðstæður hverju sinni og fá málum framgegnt. Það er þungt í vöfum kerfið sem við erum að fást við en við höfum haldið ótrauðar áfram að fá óviðunandi öryggismálum breytt.

Það er alltaf erfitt að þurfa að feta meðalveginn og líta á allar hliðar mála og ýta til hliðar tilfinningum sem að sjálfsögðu eru sterkar þegar við erum að fást við málefni lítilla vina okkar sem eiga hjörtu okkar. Við vonum að við höfum umboð ykkar til að halda öryggismálum til streitu og það er að þokast í rétta átt núna og vonum við sannarlega að við getum nú farið að sjá fram á að geta starfað án þess að hafa sífelldar áhyggjur af aðstæðum sem eiga að vera öruggar.

Með kærleikskveðju

Guðríður Guja og Ingibjörg

© 2016 - Karellen