Innskráning í Karellen
news

Fréttapóstur - Desember

19. 12. 2023

Í Eyrarskjóli er búið að ríkja gleði og gaman að vanda. Við viljum hafa leikskólann stress lausan stað í desember.

Hvað er búið að brasa fyrir utan daglegu rútínuna í nóv og desember:

 • Við héldum náttfata- og bangsa dag og rafmagnslausan dag sem vakti mikla lukku hjá börnunum og gekk vel.

 • Foreldrafélagið var svo með jólaföndur í leikskólanum sem var vel sótt og heppnaðist vel.

 • Jólin fara nú að nálgast og öll viljum við skapa gleðileg jól. Hér hefur verið unnið að jólagjöfum fyrir foreldra sem er skemmtilegur siður í leikskólum þar sem það er gott fyrir börn að læra að gefa, svo er það kúnstin að spá í hvort það á að vera leyndarmál sem börnin halda frá foreldrum sínum, eða hvort við notum tækifærið til að koma þeim skilaboðum á framfæri að það má segja mömmu og pabba öll leyndarmál, af því að það er jú mikilvægt í ljósi stóra samhengisins.

 • Börnin hafa verið að æfa jólalögin og í næstu viku mála þau og kennararnir saman piparkökur í rólegum hópatímum, þau gæða sér svo á kökunum í kaffitíma við tækifæri.

 • Föstudaginn 15. desember verðum við með jólasöngfund úti í garði, þá koma rauðklæddir vinir í heimsókn. Börnin ráða hvort þau eru nálægt eða fjær samkvæmt sínum mörkum. Þannig verður þessi stund í boði án þess að það valdi of miklu uppnámi hjá einstaklingum sem eru að æfa sig í “hvar liggja mörkin mín”. Svo borðum við hangikjöt í hádeginu með uppstúf og laufabrauði :) Jólasveinarnir koma með mandarínur í pokunum sínum fyrir börnin, í Hjallaskólum viljum við ekki stuðla að efnishyggju og bæta í ofgnótt hluta sem flest börn hafa aðgang að.

 • Hluti af umræðunni hjá okkur hefur verið hvernig við ræðum um aðvetusiði s.s. eins og skógjafir, heimsóknir jólasveina, jólasiði o.fl. Við höfum tekið þá ákvörðun að halda slíku spjalli í algjöru lágmarki. Ástæðan er: við búum í fjölmenningarsamfélagi og siðirnir eru alls konar eftir lífsskoðunum foreldra. Það getur verið gríðarlegur efnahagslegur munur á milli fjölskyldna sem skapar mismunun sem við þurfum svo sem ekkert að hafa skoðanir á, nema þá til þess að ákveða að ýfa ekki upp spennu í hugum lítilla einstaklinga sem hafa ekki þroska til að halda sjálfstjórn í spennuþrungnu andrúmi samfélags sem fer á límingunum í nokkrar vikur í aðdraganda jóla.

 • Hegðun barna í desember: Við höfum í huga að streitan í samfélaginu smýgur inn í merg og bein og þetta finna börn. Viðbrögð þeirra eru eðlilega þau að framleiða fullt af streitu hormónum sem æða um æðarnar og magnið verður jafnvel svo mikið að það myndi passa í fullorðins kropp. Við leggjum áherslu á að sýna mikinn skilning, kærleika, blíðu og bjóða fang þegar út úr flæðir hjá litlu fólki.

 • Sparifatadagur 5.janúar, börn (sem vilja) og starfsfólk mætir í sparifötum í leikskólann.

Við fengum hann Pétur Guðna í starfsmannahópinn okkar í nóvember og svo eigum við von á tveimur nýjum starfsmönnum í janúar, honum Degi Elí og Fransiscu. Við fögnum því sérstaklega að ná að rétta aðeins úr kynjahallanum í starfsmannahópnum.

Við viljum minna foreldra á að merkja öll föt hjá börnunum sínum svo ekki verði ruglingur á fatnaði.

Ég vil líka nefna að með veikindi hjá börnum að viðmiðið er að þau séu heima í amk einn dag hitalaus eftir að þau hafa verið með hita. Börn geta líka verið veik, slöpp og ómöguleg án þess að vera endilega með hita. Hér er svo hægt að sjá yfirlit á heilsuveru um algengustu smitsjúkdóma barna og hvert viðmiðið er með hvenær þau geti mætt aftur í leikskóla. Börnum verður að líða nógu vel til þess að geta tekið þátt í dagskrá leikskólans án þess að gráta af vanlíðan og þurfa stórt fang allan daginn.

27. Desember er starfsdagur hjá okkur (sem við höfum unnið af okkur í vetur) og er því leikskólinn lokaður þann dag. Einnig viljum við biðja ykkur að vera dugleg að skrá í karellen ef börnin eru í leyfum eða veik. Við erum þá að hugsa um matarinnkaup og að vera ekki að elda of mikið.


Svo má ég til með að segja ykkur aðeins frá því að við fengum frábært námskeið hjá Ólöfu Dómhildi listakonu í nóvember, um sköpun og ferli. Við fengum m.a. mjög gagnlega og hvetjandi kennslu, athugasemdir og hugmyndir m.a. um:

 • Skapandi kennslurými, úti og inni

 • Aðgengi og yfirsýn barna að mismunandi efnivið.

 • Myndlist og aðferðir - litir - form - ferli - listrýni-menning - tvívídd - þrívídd - mismunandi áferð - áferð munstur - reglulegt munstur - óreglulegt munstur - flokkun

 • Sköpun - Hvað er sköpun?

 • Kennslugögn/efniviður -

 • Hvað segja fræðin um sköpun? - ferlið og hugmyndir barnanna

Eigið dásamlega aðventu og jól með fjölskyldunni, með kærri kveðju

Ingibjörg

© 2016 - Karellen